Sunday, January 23, 2011

Fundur 2. sept 2010 - Fundargerð

Fundur var haldinn í stjórn Íbúasamtaka Eskifjarðar fimmtudaginn 2. september 2010 á sólpalli Grétars Rögnvarssonar. Mætt voru Daníel Arason, Petra Jóhanna Vignisdóttir og Grétar Rögnvarsson.

1. Samtökin hafa nú fengið kennitölu og Petra ætlar að stofna reikning í bankanum. Svo getur hún byrjað að rukka en hún ætlar að senda út tölvupósta en ekki greiðsluseðla. Örfáir félagar hafa ekki netföng og ætlar Petra að hafa samband við þá persónulega.

2. Petra talaði um að hún hefði heyrt frá fólki sem vill gera svæðið fyrir ofan vélaverkstæðið að miðbæjarreit en nú stendur þar sem kunnugt er hálfhrunið hús og rústir einar. Það var samþykkt að óska eftir upplýsingum frá bæjarráði um stöðu mála, hver ætti húsið og hvort hægt væri að semja um t.d. að Eskfirðingar tækju að sér niðurrif á því.

3. Staðsetning Hulduhlíðar hinnar nýju. Samþykkt að beina fyrirspurn til bæjarráðs (á fyrirhuguðum fundi ráðsins með stjórn íbúasamtakanna) um af hverju þessi staðsetning var valin, mögulegar aðrar staðsetningar og hvaða samráð var haft við bæjarbúa um staðsetninguna.

4. Tillaga kom fram um að framvegis verði fundir stjórnar fyrsta fimmtudag hvers mánaðar kl. 5 í skólanum. Fundir verða frá september til maí.

5. Það þarf að halda aðalfund samtakanna í september og auglýsa með 14 daga fyrirvara. Dreifibréf íbúasamtakanna er því sem næst tilbúið og það verður auglýst í því. Rætt um hvort hentugra sé að halda aðalfundina í maí í lok starfsársins.

* Rætt um að kanna það á aðalfundinum hvort félagar séu almennt að nota bloggsíðuna og hvort mönnum finnist það erfitt.

* Rætt um að inna Lolla eftir því hvort hann hafi eitthvað hreyft við umræðunni um skiltamálin. Petra minntist á handmáluðu skiltin á Reyðarfirði og hvort við gætum gert eitthvað slíkt, þá líklega í samstarfi við grunnskólann.

Fleira ekki gert og fundi slitið um 18.00.

Fundarritari Daníel Arason.

No comments:

Post a Comment