Sunday, January 23, 2011

Félagsaðild

Á tveim síðustu fundum stjórnar Íbúasamtakanna hefur komið upp umræða um félagsaðild og félagsgjöld. Nú hafa einungis um 40 manns greitt félagsgjöldin, sem er ekki einu sinni sami fjöldi og skráði sig sem stofnfélaga samtakanna.
Félagsgjöldin eru einungis 500 kr. og eru kannski frekar táknræn - en þó ekki alveg. Safnast þegar saman kemur og ef við hugsum til næstu 5-10 ára þá er kannski ekki alvitlaust að samtökin komi sér upp einhverjum smá sjóði, það er aldrei að vita hvenær það getur komið sér vel. Einnig má vel hugsa sér þær aðstæður að samtökin vilji fara út í aðgerðir se kosta fjármuni.

Í mörgum félagasamtökum er það þannig að félagið vinnur einungis í þágu félagsmanna. Svo er ekki um íbúasamtökin, þau eiga að vinna í þágu allra íbúa Eskifjarðar og munu gera það. Það er hins vegar mun áhrifaríkara ef Eskfirðingar eru þá félagar í samtökunum. Það gefur stjórnarmönnum aukna hvatningu til að vinna vel og leggja á sig þá vinnu sem þarf fyrir samtökin, og einnig er það gott fyrir okkur að geta vitnað til þess að svo og svo margir Eskfirðingar séu skráðir í samtökin.

Þess vegna hvet ég alla, og ég meina ALLA, Eskfirðinga til að ganga í samtökin og greiða félagsgjöldin.

Kveðja, Daníel Arason formaður Íbúasamtaka Eskifjarðar

No comments:

Post a Comment