Saturday, May 22, 2010

Ályktun

Íbúasamtök Eskifjarðar hafa nú sent frá sér ályktun. Hana má lesa hér í færslunni að neðan.
Það er ljóst að það mál sem brunnið hefur heitast á Eskfirðingum undanfarin misseri er ástandið í læknamálum okkar. Íbúasamtökin hafa fjallað nokkuð um þetta og m.a. haldið fundi með fyrrv. lækni, Hannesi Sigmarssyni og annan fund með fulltrúum HSA.
Stjórnarmenn í samtökunum hafa fundið fyrir mjög miklum (svo ekki sé dýpra tekið í árinni) vilja Eskfirðinga um að Hannes Sigmarsson taki aftur við sínu gamla starfi sem læknir Eskfirðinga. Þeim vilja teljum við okkur nú hafa komið á framfæri með því að taka undir vel orðaða ályktun bæjarráðs Fjarðabyggðar um að allra leiða verði leitað til að svo megi verða.
Ályktunin hefur verið send á heilbrigðisráðherra og helstu fjölmiðla.

Daníel Arason, formaður Íbúasamtaka Eskifjarðar.

Ályktun Íbúasamtaka Eskifjarðar um læknamál á Eskifirði

Eskifjörður, 30. mars 2010.
Stjórn Íbúasamtaka Eskifjarðar harmar það ástand sem ríkir í læknamálum á Eskifirði og reyndar sunnan Oddsskarðs almennt. Viljum við að þau mál verði leyst á farsælan hátt. Íbúasamtök Eskifjarðar styðja því heilshugar við þá ályktun sem Bæjarráð Fjarðabyggðar sendi frá sér sem samþykkt var samhljóða á bæjarráðsfundi þann 23. mars 2010. Það er alveg ljóst að íbúar í Fjarðabyggð gera tilkall til að búa við öryggi í heilsugæsluþjónustu.

Ályktun Bæjarráðs Fjarðabyggðar, 23. mars, 2010.

Bæjarráð Fjarðabyggðar skorar á heilbrigðisráðherra að leita leiða til þess að starfskraftar Hannesar Sigmarssonar heilsugæslulæknis megi áfram nýtast íbúum Fjarðabyggðar. Heilsugæsla á Eskifirði var með ágætum í hans tíð og íbúar hafa verið sáttir við hana. Ítrekaðar rannsóknir hafa ekki leitt í ljós tilefni til ákæru vegna starfa Hannesar í heilsugæslu Fjarðabyggðar. Bæjarráð telur að starfsmannamál beri að leysa eftir þeim leiðum sem lög og kjarasamningar gera ráð fyrir. Minnt er á að góð heilsugæsla er einn grundvallarþátturinn í velferð og öryggiskennd íbúa.

Stjórn Íbúasamtaka Eskifjarðar,
Daníel Arason.
Grétar Rögnvarsson.
Guðrún Gunnlaugsdóttir.
Kristjana Guðmundsdóttir.
Petra Vignisdóttir.
Þórlindur Magnússon.