Saturday, October 9, 2010

Lagabreyting

Á aðalfundi Íbúasamtakanna fimmtudaginn 7. október 2010 var samþykkt lagabreyting á 7. gr. laga Íbúasamtakanna. Aðalfundur mun framvegis verða haldinn í maí ár hvert en ekki september. Ný lög félagsins eru þá sem hér segir (ajá breytingu á 7. gr.)

1. grein

Samtökin heita Íbúasamtök Eskifjarðar, skammstafað Í.S.E.

Félagssvæðið er Eskifjörður. Heimili og varnarþing samtakanna er á Eskifirði.


2. grein

Tilgangur samtakanna er:

....að vinna að framfara- og hagsmunamálum íbúa Eskifjarðar

....að stuðla að samhug og samstarfi íbúanna


3. grein

Allir íbúar Eskifjarðar, sem þar eiga lögheimili og greiða félagsgjöld, teljast félagar. Kjörgengi hafa allir lögskráðir íbúar Eskifjarðar 18 ára og eldri.


4. grein

Stjórn Í.S.E. fer með æðsta vald í málefnum samtakanna milli aðalfunda.

* Stjórn Í.S.E. skal skipuð fimm stjórnarmönnum; formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda.

* Kjörtímabilið er til tveggja ára. Stjórnarmenn geta verið endurkjörnir tvisvar í röð. Skal kjósa tvo stjórnarmenn á jöfnu ártali en þrjá hitt árið. Varamenn skulu vera tveir og kosnir árlega. Stjórn skiptir með sér verkum. Einnig skal á aðalfundi kjósa tvo skoðunarmenn reikninga samtakanna til eins árs.


5. grein

Formaður boðar stjórnarfundi og stýrir þeim. Skylt er að halda stjórnarfund ef þrír stjórnarmenn óska þess. Ef aðalmaður getur ekki mætt skal kalla varamann í hans stað. Stjórnarfundur er lögmætur ef þrír stjórnarmenn eru mættir, þar af formaður eða varaformaður. Stjórnin skal halda gerðabók um störf sín.


6. grein

Málefnum samtakanna er stjórnað af: a) Aðalfundi b) Stjórn félagsins.


7. grein

Aðalfund skal halda ár hvert í maí, og skal hann auglýstur opinberlega með fjórtán daga fyrirvara og telst fundarboðunin þá lögleg. Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum samtakanna. Reikningsár samtakanna er almanaksárið. Séu lagabreytingar fyrirhugaðar skal þess getið í fundarboði og jafnframt hvaða greinum laganna fyrirhugað er að breyta. Einfaldur meirihluti ræður niðurstöðu mála, nema lagabreytingar sem þurfa 2/3 hluta greiddra atkvæða.


Dagskrá aðalfundar:

1. Formaður setur fund og tilnefnir fundarstjóra og fundarritara.

2. Formaður flytur skýrslu stjórnar um störf á liðnu ári.

3. Gjaldkeri skýrir reikninga samtakanna.

4. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga samtakanna.

5. Reikningar bornir undir atkvæði.

6. Árgjald ákvarðað

7. Lagabreytingar.

8. Kosningar samkvæmt 4. grein þessara laga.

9. Önnur mál.

10. Fundarslit.


8. grein

Stjórnin skal boða til almenns íbúafundar a.m.k. einu sinni á ári og ef ákveðnar óskir koma fram þar að lútandi. Fundurinn skal auglýstur og með viku fyrirvara.


9. grein

Stjórn er heimilt að stofna nefndir á hverjum tíma eftir því sem þörf krefur. Nefndir samtakanna skulu hafa fullt samráð við stjórnina um mál er varða samtökin og halda gerðabók um störf sín.


10. grein

Lögum þessum má aðeins breyta með 2/3 greiddra atkvæða á aðalfundi. Tillaga að lagabreytingum skal berast stjórn félagsins í síðasta lagi 15. ágúst.


11. grein

Ef leggja á samtökin niður getur það einungis gerst á aðalfundi með 2/3 hluta greiddra atkvæða. Eignir samtakanna skulu þá renna til íþrótta- og æskulýðsmála á

félagssvæðinu. Ákvæði til bráðabirgða.Vegna framkvæmdar á grein 4 á stofnfundi skal kjósa 3 aðalmenn í stjórn sem sitja til aðalfundar 2011 og 2 sem sitja til aðalfundar 2012.