Monday, December 20, 2010

Fyrirspurn til bæjarráðs vegna hins svk. "Edduborgarreits"

Stjórn Íbúasamtakanna beindi nýverið fyrirspurn til bæjarráðs varðandi framkvæmdir á hinum svokallaða "Edduborgarreit" í miðbæ Eskifjarðar. Stjórn Íbúasamtakanna er á þeirri skoðun að þessu svæði beri að breyta í miðbæjar- og útivistarsvæði fyrir Eskfirðinga, setja þar upp svið sem nýta megi á hátíðisdögum, planta trjám og öðrum gróði, leggja göngustíga og setja upp bekki og borð og þarna gætu Eskfirðingar notið lífsins saman á góðviðrisdögum.
Ef Eskfirðingar hafa almennar athugasemdir við þessa afstöðu stjórnar þá er bara að koma henni á framfæri hér í athugasemdum eða í tölvupósti á ibuasamtoesk@gmail.com

Eftir að þetta svar barst kom í ljós að Eskja hafði fallið frá því að koma að rifunum og mun Fjarðabyggð alfarið sjá um þau.

Fyrirspurnina og svar bæjarráðs fylgir hér:

Hver er staðan á framkvæmdum við hinn svokallaða Edduborgarreit á Eskifirði? (Sem þarf reyndar að fara að finna annað betra nafn fyrir). Hafa einhverjar ákvarðanir verið teknar hvenær ráðist verður í niðurrif húsa á svæðinu ?

Stjórn Íbúasamtaka gerir að tillögu sinni að svæðið verði skipulagt sem útivistar og miðbæjarsvæði, komið verði upp útisviði þannig að hægt verði að vera með skemmtiatriði þar á hátíðisdögum. Einnig verði settir upp bekkir og borð, plantað trjám og fleira mætti gera. Stjórnin lýsir yfir vilja til að vera í forsvari fyrir þessar framkvæmdir verði þær að veruleika.

Svar bæjarráðs:

Fjarðabyggð eignaðist húsnæðið á svokölluðum Edduborgarreit 19. nóvember sl. með þinglýsingu á afsali þess efnis, en fram að því hafði Frjálsi fjárfestingarbankinn átt húsnæðið. Þegar afsal lá fyrir var sótt um starfsleyfi til HAUST og framkvæmdarleyfi til byggingarfulltrúa til að rífa húsnæðið og ganga frá lóðinni til bráðabirgða. Öll leyfi lágu fyrir 30. nóvember og var hafist við að rífa húsnæðið þann dag.

Verkefnið er unnið í nánu samstarfi Fjarðabyggðar og Eskju, en Eskja hafði áður boðist til að kosta niðurrif húsnæðisins. Gert er ráð fyrir að verkið klárist fyrir lok janúar 2011, en þó helst fyrr.

Undirritaður mun leggja fram tillögu á næsta fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar þess efnis að farið verði í gerð deiliskipulags fyrir svæðið. Verður þá lagt til að tillaga íbúasamtakanna verði skoðuð ásamt því að skoðaðir verði allir möguleikar með nýtingu svæðisins. Vilji íbúasamtakanna til samstarfs um verkefnið er frábær og mun undirritaður leitast efir sem mestu samstarfi um verkefnið. Einnig vil ég vekja athygli aftur á framtaki Eskju í þessu máli en ljóst er að bæjarsjóður væri í vandræðum með að fjármagna rifin.

No comments:

Post a Comment